Ég er doula, leiðbeinandi í meðgöngujóga og fæðingarundirbúningi sem og ungbarnanuddi en áður hef ég lokið námi í og unnið sem kennari, náms- og starfsráðgjafi og hómópati. Ég er gift fimm barna móðir og á að auki tvö eldri stjúpbörn. Ég hef alla tíð verið mikil áhugamanneskja um fæðingar, ungabörn og börn almennt. Ég elska að fræðast um mitt helsta áhugamál fæðingar, lesa, vera úti og allra mest að njóta samvista með fjölskyldu minni. Ég nýt þess að geta verið til staðar fyrir verðandi mæður og aðstandendur hennar í þessu mikla og ögrandi verkefni sem fæðing er og leitast við að veita þér/ykkur þá aðstoð sem þið hafið þörf fyrir. Ég leitast við að hjálpa konum að upplifa að fæðingin sé þeirra, að á þær sé hlustað, þeirra þörfum og óskum sé mætt og að þær geti verið við stjórnvölinn því slík upplifun er mjög eflandi fyrir verðandi mæður. Fæðing snýst nefnilega um meira en hið dásamlega kraftaverk að koma barni í heiminn. Mæður fæðast um leið og hversu mikilvægt er að þær megi fæðast fullar af trú á eigin getu og styrk. Á meðgöngunni gefum við okkur góðan tíma í fæðingarundirbúning því að meiri þekking um fæðingarferlið og þau bjargráð sem hægt er að nýta sér skila sér í því að ná meiri ró í fæðingunni og þau bjargráð sem við förum yfir auka á þægindi og geta klárlega skilað sér í verkjaminni og betri fæðingarupplifun. Mín hugsjón og það sem ég vil vinna að er að styðja og styrkja verðandi mæður og foreldra í að eignast sem besta fæðingarupplifun því slíkt skilar sér í góðu upphafi fyrir barnið og sterkari foreldrum. Hvað feðurna varðar hef ég upplifað að sjá þá eflast mjög í sínu hlutverki í fæðingunni með viðveru doulu eftir að hafa fengið fræðslu um m.a. hversu miklu umhyggja þeirra skilar sér í betri gangi fæðingarinnar og þeir upplifa sig almennt öruggari með doulu sér við hlið. Á heimasíðu minni, modurafl.is, getur þú séð meira um starfsemi mína og haft samband ef þú vilt spjalla eða fá kynningarhitting um douluþjónustu, hvort doula sé eitthvað fyrir þig og hvort ég sé rétta doulan fyrir þig (kynningarhittingur kostar ekkert og er engin skuldbinding um frekara samstarf). dagnyerla@modurafl.is s: 698-2977