Ég er ansi oft spurð hvað doula er. Lyfturæðan mín segir að ég sé stuðningskona við aðra konu og fjölskyldu hennar, fyrir, í og eftir fæðingu.
Brandarinn minn er að ég sé þjálfari, standi á hliðarlínunni og öskri áfram, þú getur þetta.
Þegar ég tek mig alvarlega segist ég vera talskona fæðandi kvenna.
Mér finnst ég standa mig best þegar ég geri ekki neitt.
Í grunninn er doula bara kona sem aðstoðar aðrar konur í gegnum fæðingu, reynir að hvetja þær og styðja þannig að þær finni styrk sinn og mátt. Hlutverk doulu er að hlúa að og styðja verðandi fjölskyldu í sínu vali þegar kemur að fæðingu.
Doulur vinna hönd í hönd, hjarta í hjarta.
Þjónusta doulu er samfelld, við kynnumst konunum fyrir fæðingu, erum með þeim alla fæðinguna og hittum þær eftir fæðingu. Meðan við stöndum í lappirnar stöndum við vaktina. Stundum þegjum við úti í horni, stundum erum við með þvottapokann, stundum tölum við hughreystandi og reynum að lina verkina með höndum okkar. Við erum þarna, þjónn við fæðandi konu. Reynum að gæta þess að hennar upplifun sé besta mögulega fæðingaupplifunin.
Þjónn er einmitt upprunaleg merking gríska orðsins doula þó það hafi í dag tekið á sig aðra merkingu.
Fjölmargar rannsóknir hafa verið gerðar á gagnsemi doulu, allar sýna jákvæðar niðurstöður. Konur sem hafa doulu með sér eru almennt öruggari fyrir fæðinguna, ánægðari með fæðingarupplifun sína, fæðingin er mælanlega styttri, minnkuð þörf fyrir verkjalyf, brjóstagjöf gengur betur, parasambandið er betra, jákvæðari upplifun af foreldrahlutverkinu og fleiri atriði má telja til. Því hefur verið haldið fram að ef doula væri verkjalyf myndu allar konur nýta sér þær.
Doulur styrkja feður (maka) í fæðingarferlinu, í fyrstu halda margir makar að þeir verði óþarfir og fyrir og doulur taki yfir starf þeirra en doulur styðja þá í að styðja konuna sína. Hlutverk verðandi föðurs er ekki síst stórt og stuðnings þörf. Þeir eiga jú von á barni og eru svo líka helsti stuðningur móðurinnar. Auk þess að benda á leiðir til að styðja verðandi móður geta þeir samviskubitslaust fengið sér að borða eða skroppið á klósettið.
Doulur eru ekki læknismenntaðar, hlutverk þeirra er ekki klínískt og þær taka ekki klíníska ábyrgð. Doulur og ljósmæður eiga það sammerkt að hlúa að fæðandi konum og líta á fæðingarferlið sem venjulegt og heilbrigt. Doulur starfa í náinni samvinnu við ljósmæður, geta styrkt og auðveldað starf þeirra en þær koma aldrei í stað þeirra. Því þó starf þeirra snúist um það sama, að styðja konur er það mjög ólíkt. Rannsóknir styðja þetta, bestu fæðingarútkoman er með doulu og ljósmóður.
Við erum þar sem fjölskyldan vill vera, upp á spítala eða í heimahúsi en alltaf við hlið annars fagfólks.
Orðið doula (dúla) er ekki mjög þjált á okkar ástkæra ylhýra en er þó líklega orðið sem er komið til að vera. Eftir nokkra ára pælingar held ég að fylgja ætti að vera íslenska orðið yfir doulu. Fylgja nær líka svo skemmtilega yfir starfið, við fylgjum konum, bíðum eftir fylgjunni og fylgjumst svo með. Sjáum til hvort það festist.
Mér finnst ég vera lánsamasta kona í heimi að fá að vinna við það sem ég geri. Það jafnast ekkert á við að ganga út í daginn eftir að hafa kvatt nýja foreldra.
Það besta við starfið er líka að mestu skilar kona oft þegar hún gerir ekki neitt. Það er auðvitað mjög krúttlegt.
Soffía Bæringsdóttir pistillinn er líka birtur hér http://hondihond.is/2014/03/01/doula-hvad-er-nu-thad/#sthash.0Dicpzz1.dpuf